Um Laugarnesskóla

Laugarnesskóli er teiknaður af Einari Sveinssyni húsameistara og er einn af elstu skólum Reykjavíkur Hann tók til starfa 19. október 1935. Frá því að hann hóf störf hafa ýmsar hefðir orðið til sem eru orðnar fastir liðir í skólastarfinu og margt er það sem skapar honum einstaka sérstöðu meðal grunnskóla Reykjavíkur. Má þar nefna listaverka- og náttúrugripasafn skólans, morgunsöng og Katlagili í Mosfellsdal sem á sér yfir 50 ára sögu skógræktar, uppbyggingar og útikennslu. 

Vaxandi hugarfar og þrautseigja

Vaxandi hugarfar hvetur okkur til að sjá mistök og áskoranir sem tækifæri til að læra og vaxa. Þrautseigja gefur okkur þann vilja og ástundun til að halda áfram að vinna að markmiðum okkar og takast á við nýjar áskoranir. 

Teikning af Ásmundarsafni.

Góður skólabragur

Réttindaskóli Unicef

Laugarnesskóli hlaut viðurkenningu sem réttindaskóli Unicef árið 2017 og hefur sú viðurkenning verið endurnýjuð.

Markmið Réttindaskóla er að byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpa börnum að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annarra starfsmanna.

Meira um Réttindaskóla Unicef

Grænfánaskóli

Laugarnesskóli tekur þátt í Grænfánaverkefninu sem byggir á hugmyndafræðinni um menntun til sjálfbærni.

Meira um Grænfánann

Regnbogaskóli

Laugarnesskóli hefur fengið Regnbogavottun Reykjavíkurborgar. Sjá hlekk á forsíðu.

PBS jákvæð agastjórnum

PBS (Positive behavior support) er heildstætt vinnulag þar sem hvatt er til jákvæðrar hegðunar með kerfisbundnum hætti í stað þess að einblína á neikvæða hegðun og refsingar. PBS er þríþætt kerfi sem nær til alls skólasamfélagsins. Það felur í sér stuðningskerfi fyrir skólann í heild, bekki/hópa og einstaka nemendur. Vinnulagið miðar að því að allir starfsmenn skólans fái þjálfun í að móta og viðhalda æskilegri hegðun hjá nemendum. Væntingar til hegðunar eru gerðar mjög skýrar og aðgengilegar.

 Markmið með PBS er að:

● Auka félagsfærni og námsárangur með því að skilgreina, kenna og styðja við æskilega hegðun. 

● Draga úr óæskilegri hegðun með því að búa til skýrar reglur um samskipti. Áhersla er lögð á að sjá fyrir og fyrirbyggja hegðunarvanda með skýrum agaferli 

● Samræma aðgerðir og vinnulag starfsfólks skóla til þess að auka æskilega hegðun og koma í veg fyrir óæskilega hegðun.

 

Kennsluhættir

Byrjendalæsi

Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð ætluð til lestrarkennslu sem nær til allra þátta móðurmálsins. Þannig er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld inn í eina heild undir hatti læsis. Góðar barnabækur er sá efniviður sem unnið er með í námi og kennslu, jafnt í tæknilegri vinnu með stafi og hljóð sem og vinnu með orðaforða og skilning. Helsti kostur aðferðarinnar er að nemendur læra skilvirka tækni til að lesa stöðugt ný orð sem koma fyrir í texta. Enn fremur eru sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og málfræði tengd inn í ferlið. Í stafainnlögn er áherslan á hljóðaaðferð. Grundvallaratriði hljóðaaðferðarinnar er að nemendur skilji að bókstafirnir tákna hljóð orðanna í talmálinu.

Leiðsagnarnám

Leiðsagnarnám er námsferli þar sem nemendur fá stuðning og leiðbeiningar til að þróa eigin hæfni og sjálfstæði í námi. Það felur í sér að kennarar veiti nemendum leiðsögn við að setja sér markmið, meta eigið nám og nýta styrkleika sína. Markmiðin þurfa að vera vel skilgreind svo nemandinn, kennarinn og aðrir sem að náminu koma hafi sama skilning á því hvað sé til marks um að markmiðum sé náð. Nemendur eru hvattir til að taka áskorunum og sýna þrautsegju í námi.  Litið er á mistök sem námstækifæri og þau eðlilegur hluti af náminu. Tilgangur leiðsagnarnáms er að valdefla nemendur, svo þeir verði færir um að taka ábyrgð á eigin námi.